Skilgreina þarf hugtakið kolefniseining í lögum og ekki ætti að vera heimilt að flytja út alþjóðlegar kolefniseiningar (ITMOs) frá Íslandi sem hefðu neikvæð áhrif á losunarbókhald Íslands fyrr en skuldbindingar um samdrátt í losun hafa verið uppfylltar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins um kolefnismarkaði og áskoranir og tækifæri þeirra í íslensku samhengi.
Á sama tíma er í skýrslunni lagt til að sett verði stefna um kaup á kolefniseiningum frá öðrum ríkjum til að uppfylla markmið um samdrátt í samfélagslosun og kolefnishlutleysi, að því gefnu að markmið náist ekki með aðgerðum innanlands.
Skoði ívilnanir
Starfshópurinn leggur einnig til að skattaleg umgjörð rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum verði skoðuð, með tilliti til mögulegra ívilnana og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar.
Þá er lagt til að stjórnvöld taki þátt í tilraunaverkefni um milliríkjaviðskipti á grundvelli Parísarsamningsins sem fæli í sér kortlagningu á nauðsynlegum innviðum stjórnkerfisins til að sinna slíkum verkefnum.
Skýrslunni er ætlað að greina stöðu kolefnismarkaða hér á landi, kanna tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki á þessum mörkuðum og meta hvort íslensk stjórnvöld gætu nýtt sér kolefnismarkaði til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum.
16 tillögur setta fram
Meginþungi hennar er á valkvæða kolefnismarkaðinn, sem þróast hefur hratt á undanförnum árum, auk umfjöllunar um alþjóðlegt samstarf um viðskipti með kolefniseiningar byggt á Parísarsamningnum. Þá er einnig fjallað um kolefnismarkað og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og verkefni á sviði föngunar og förgunar kolefnis og tengingu við alþjóðlega kolefnismarkaði
Skýrslan var kynnt á fundi í ráðuneytinu fyrir skömmu. Nefndina skipa þau Jónas Fr. Jónsson, hæstaréttarlögmaður og formaður nefndarinnar, Helga Barðadóttir, sérfræðingur í umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneyti og Salóme Hallfreðsdóttir, sérfræðingur í matvælaráðuneyti. Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri í matvælaráðuneyti, tók sæti Salóme í febrúar 2024 og Rafn Helgason, sérfræðingur í matvælaráðuneyti, tók sæti Björns í maí 2024
Starfshópurinn setti fram 16 tillögur í fimm flokkum í samantekt sinni. Skiptast þær niður í flokkana A. Ríkið sem kaupandi eininga; B. Stefnumótun; C. Lagabreytingar; D. Alþjóðleg samvinna og E: Óflokkað. Eru þær eftirfarandi:
A. Ríkið sem kaupandi kolefniseininga
Mælt verði fyrir um það í lögum að settar verði leiðbeiningar um gæði kolefniseininga sem ríkið kaupir.
Kolefniseiningar og verkefni sem framleiða þær og opinberir aðilar kaupa ættu að hafa fengið staðfestingu frá faggildum/trúverðugum vottunaraðila og fela í sér raunverulegan loftslagsávinning.
Kolefniseiningar sem opinberir aðilar kaupa ættu að vera skráðar í skráningarkerfi þriðja aðila sem metið er fullnægjandi.
Verkefni sem gefa af sér kolefniseiningar sem opinberir aðilar kaupa ættu að uppfylla lágmarksreglur, svo sem að vera raunveruleg (e. real), mælanleg (e. measurable), varanleg (e. permanent) og rekjanleg (e. traceable). Sýna þarf fram á viðbótarárangur (e. additionality), að einingar séu einkvæmar (e. unique) og ekki tvítaldar (e. no double counting).
Einstakir kaupendur (opinberir aðilar) ættu að upplýsa opinberlega um fjölda keyptra og notaðra eininga og tegund verkefna að baki einingunum. Jafnframt því ættu þeir að skýra árlega frá umfangi losunar sinnar.
Umhverfisstofnun endurskoði leiðbeiningar um kolefnisjöfnun fyrir opinbera aðila frá 2020 og slíkt verði gert reglulega (þó að teknu tilliti til útfærslu á fyrsta tölulið hér að ofan).
Könnuð verði nýting útboða til kaupa á kolefniseiningum fyrir þá aðila sem falla undir 5. gr. c í lögum nr. 70/2012.
Ríkið sem landeigandi eigi frumkvæði að því að skilgreina land til loftslagsaðgerða með framkvæmdaáætlun um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála. Við ráðstöfun lands til aðgerða verði jafnræðis gætt, t.d. með útboði.
B. Lagabreytingar
Hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum.
Unnið verði lagafrumvarp í samvinnu við atvinnulífið um kolefnisskrár með það að markmiði að setja almenna umgjörð um slíka starfsemi, svo sem um stofnun, hæfisskilyrði eigenda, kröfur til ferlis við skráningu og afskráningu kolefniseininga, réttaráhrif skráningar og þátttakendur í skráningar-/afskráningarferli.
C. Stefnumótun
Sett verði stefna um kaup á kolefniseiningum frá öðrum ríkjum til að uppfylla markmið um samdrátt í samfélagslosun sem og kolefnishlutleysi, að því gefnu að markmið náist ekki með aðgerðum innan lands.
Stjórnvöld móti stefnu, t.d. með viðbót í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, um að ekki verði heimilaður útflutningur á alþjóðlegum kolefniseiningum (ITMOs) frá Íslandi sem hefðu neikvæði áhrif á losunarbókhald Íslands. Stefnuna má endurskoða þegar Ísland hefur uppfyllt skuldbindingar um samdrátt í losun.
Skattaleg umgjörð rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum verði skoðuð m.t.t. mögulegra ívilnana og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar:
Aukið svigrúm fyrirtækja til frádráttar á útgjöldum til kolefnisjöfnunar eigin reksturs með nánari greiningu á því hvenær markmið um t.d. kolefnishlutleysi teljist tengt tekjuöflun. Þannig væri horft til þess hvenær kaup á kolefniseiningum frá þriðju aðilum gætu talist eiginlegur rekstrarkostnaður (í stað gjafa/framlaga) (og þá með virðisaukaskatti).
Sérstakar fyrningarheimildir vegna fjárfestinga í fasteignum (þ.m.t. landi) eða búnaði til framleiðslu kolefniseininga og/eða samdráttar eða bindingar í eigin starfsemi.
Möguleikar á endurgreiðslu tiltekins hlutfalls fjárfestingaútgjalda vegna verkefna sem stuðla að varanlegri bindingu kolefnis og framleiðslu kolefniseininga til sölu.
Hvort heimila eigi fyrirtækjum að greiða umhverfisskatta (eða lækka skattstofn) með afhendingu kolefniseininga.
D. Alþjóðleg samvinna
Lagt er til að íslensk stjórnvöld taki þátt í tilraunaverkefni um milliríkjaviðskipti á grundvelli 6. gr. Parísarsamningsins sem fæli m.a. í sér kortlagningu á nauðsynlegum innviðum stjórnkerfisins til að sinna slíkum verkefnum.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið (URN) óski eftir því að utanríkisráðuneytið, í samstarfi við URN, kanni hvernig loftslagsverkefni á sviði þróunarsamvinnu geta nýst þróunarríkjunum til að ná markmiðum sínum í átt að kolefnishlutleysi á grundvelli 6. gr. Parísarsamningsins. Horft verði til allra þátta sem ákvæði greinarinnar ná til og upplýsinga aflað um hvernig önnur sambærileg ríki vinna með ákvæði hennar.
E. Annað
Stjórnvöld hafi frumkvæði að því að leiða saman hagaðila til að kanna áhuga á stofnun viðskiptavettvangs (markaðstorgs) með kolefniseiningar. Jafnframt mættu opinberir aðilar íhuga notkun þessa, t.a.m. uppboðsmarkaða, í því skyni að stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri, tryggja samkeppni og jafnræði seljenda, auk þess sem slíkt gæti eflt nýsköpun og þróun varðandi lausnir í loftslagsmálum.
Grein birtist upphaflega á mbl.is