Starfshópur um kolefnismarkaði hefur verið að vinna að því að kortleggja stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar á kolefnismörkuðum, bæði þeim lögbundnu og valkvæðu. Í ljósi þess að brátt kemur niðurstaða frá Umhverfis-orku-og-loftlagsmálaráðuneytinu fannst mér við hæfi að sýna hér minnisblaðið sem Súrefni lagði til málanna.
Efni: Minnisblað fyrir starfshóp um kolefnismarkaði
Skrifað af: Aríel Jóhann Árnason
Fyrirtæki: Súrefni vottaðar einingar
Það gleður okkur hjá Súrefni að ríkisstjórn Íslands sé að sýna hinum valkvæða kolefniseiningamarkaði meiri áhuga og brýnt hefur verið að tengja ríkisstjórnina og hinn valkvæða markað saman.
Mikilvægt að aðskilja þessa tvo markaði, hinn valkvæða og hinn lögbundna, og þar sem við hjá Súrefni höfum eingöngu verið að vinna á hinum valkvæða eru okkar skoðanir og upplýsingar beintengdar þeim markaði.
Við höfum lært gífurlega mikið á þessum síðustu þremur árum sem við höfum verið með starfsemi á hinum valkvæða markaði, sér í lagi þar sem hann hefur í raun verið að þróast hratt á þessum tíma og meðal annars var okkar vinna með Staðlaráði að tækniforskriftinni ÍST TS 92 um kolefnisjöfnun á Íslandi enn betra tækifæri til að læra á og aðstoða við þróun á markaðinum.
Við teljum að hinn valkvæði markaður gegni því megin hlutverki að bæta upp það sem hinn lögbundna skortir, hvort sem það er aukin tilkoma markaðsafla, aukið aðgengi fyrir almenna einstaklinga og lögaðila til að taka þátt í að bregðast við loftlagsvánni eða til að beina auknu fjármagni til smærri verkefna og sprotastarfsemi í sjálfbærum iðnaði og verkefnum.
Þó kolefniseiningar séu undirstaða okkar verkefna og starfsemi þá höfum við einnig verið hluti af tilkomu plasteininga út frá aðferðafræði Verra og markaður plasteininga starfar að miklu leyti eins; hvert rúmtonn af plasti sem safnað eða endurunnið er samsvarar einni plasteiningu sem lögaðilar um allan heim geta nýtt sér til að jafna út þeirra óumflýjanlegu plastspor. Slíkar einingar gætu aðstoðað við fjármögnun brýnna plastsöfnunar- og endurvinnsluverkefna sem annars væri ekki hægt að hefja eða þróa áfram.
Við sjáum mörg tækifæri á íslenskri grundu í þessum iðnaði og okkar helsta athugasemd gagnvart ríkisstjórn Íslands væri fyrst og fremst að skortur virðist enn vera á raunverulegri hvatningu fyrir einkaaðila, hvort sem um fyrirtæki eða einstaklinga er að ræða, til jöfnunar á eigin losun. Slík hvatning, hvort sem hún væri neikvæð eða jákvæð (þ.e.a.s. í formi skattafsláttar eða skattlagningar), myndi hafa tvennskonar megináhrif:
Annars vegar myndi slík hvatning ýta undir mikilvægi vottunar á loftslagsaðgerðum sem ofangreind tækniforskrift hjálpaði við að skilgreina - hvatningin væri eingöngu aðgengileg ef um vottaðar aðgerðir (vottaðar kolefnis- eða plasteiningar) væri að ræða og að lögaðilar væru að vinna út frá samsvarandi vottuðum útreikningi eigin losunar. Hinsvegar myndi slík hvatning gefa aukinn meðbyr, beint eða óbeint, til sjálfbærra verkefna, út frá sölu eininganna, sem gæfi þeim aukinn áreiðanleika sem hingað til hefur vantað í almenningsálitið á kolefniseiningum.
Vissulega eru fjölmörg sniðug sprotaverkefni að fá tækniþróunarstyrki og alls kyns aðra styrki, en örfá þeirra komast nokkurn tíma upp af þróunarstiginu og byrja að hafa jákvæð loftlagsáhrif. Ef íslenska ríkið myndi leggja aukna áherslu á hvatningu í formi skattaafsláttar eða skattlagningu eins og má nú þegar sjá t.d. Í Danmörku, myndi það leggja skýrar línur og endurspegla ágæti vottunarferilsins sem fylgir vottuðum kolefnis- og plasteiningum og jafnframt sýna áherslur ríkisins enn betur þegar kemur að loftlagsaðgerðum.
Ísland stæði jafnfætis frændum okkar í Danmörku sem fyrirmyndir á heimsvísu, ekki bara í sjálfbærri orkuframleiðslu heldur myndi þetta gefa allri þjóðinni tækifærið til að standa saman að fjármögnun sjálfbærra verkefna með því að nýta fjármögnunartækið “vottaðar einingar” sem er áreiðanlegasta leið sjálfbærra verkefna til að sýna sitt ágæti, auka sín áhrif og verða að veruleika. Áreiðanleikinn sem fylgir vottunarferlinu, sem er ýtarlegt og flókið, myndi þar með fá aukið vægi út frá kröfum ríkisins og gera allt ferlið aðgengilegra, til að mynda gagnvart bönkum og öðrum fjármögnunarleiðum í upphafi vottunarferilsins.
Þetta að okkar mati myndi endurspegla stefnu íslenska ríkisins, þar sem samspil ríkis og einkaaðila hefur verið mikið en ríkið hefur ávallt gefið einkaaðilum frelsi til nýsköpunar og tekjuaukningar án þess þó að sleppa algjörlega takinu. Þegar kemur að háleitum loftlagsmarkmiðum íslenska ríkisins um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 teljum við þó að meira megi gera til að tengja saman ríkisvaldið og hin vaxandi umsvif hins valkvæða markaðs kolefniseininga sem við teljum að muni á næstu áratugum stækka svo í umsvifum að hann muni hafa úrslitaáhrif á loftlagsvána.
Ef frekari spurningar vakna eða vangaveltur varðandi hinn valkvæða kolefniseiningamarkað þá fögnum við öllum fyrirspurnum og verðum að liði eins og við getum.