AÐALATRIÐIN

Hvað er átt við með kolefnisspori?

Kolefnisspor eða kolefnisfótspor er sú heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem einstaklingur, viðburður (t.d. tónlistarhátíð), fyrirtæki (t.d. álfyrirtæki) eða framleiðsla tiltekinnar vöru (t.d. lambakjöts) veldur á einu ári. Sporið er myndlíking fyrir áhrifin sem einstaklingurinn, viðburðurinn, fyrirtækið eða varan hefur á loftslagið, svipað og þegar við skiljum eftir fótspor í rökum sandi eða snjó. 

 

Stærð og dýpt fótsporsins, sem við skiljum eftir í sandi eða snjó, fer eftir því hversu stór og þung við erum. Sama gildir um kolefnisfótspor. Því stærra  sem kolefnisfótspor tiltekinnar vöru er því meiri áhrif hefur framleiðsla og neysla vörunnar á loftslagið. 


Hér getur þú reiknað þitt kolefnisspor á fljótlegan hátt og kolefnisbundið á móti því. Nánari og flóknari reiknivél má finna á kolefnisreiknir.is

 

 

 

Í stuttu máli:

 

Kolefnissporið þitt er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem þú veldur á einu ári - hér geturðu reiknað þitt fótspor auðveldlega.

 

Hvað er Súrefni að gera til að koma í veg fyrir kolefnislosun? 

 

Súrefni starfar sem kolefnisjöfnunarmiðlari á Íslandi. Fyrsta verkefni okkar var  Súrefnisskógarnir, sem gróðursettir eru í samstarfi við Skógræktina.  Nú eru á döfinni fjölmörg önnur verkefni sem munu einnig kolefnisbinda og kolefnisjafna losun og mengun í umhverfinu með ýmsu móti. 

 

Ennfremur er Súrefni hluti af vinnuhópi ýmissa hagsmunaaðila á íslenskum markaði við að koma á kerfi í kringum ábyrga kolefnisjöfnun á vettvangi Staðlaráðs Íslands (ÍST WA 91:2021). 

 

Sú afurð sem ætlað er að koma úr því starfi mun leiða af sér að fyrirtæki á Íslandi munu geta fengið vottaða losun sína og mótvægisaðgerðir ásamt því að íslensk loftlagsverkefni í skógrækt, votlendisendurheimt eða öðru munu geta fengið vottun á framleiddar kolefniseiningar.

Tilgangur þessa starfs er að tryggja rekjanleika, gagnsæi og áreiðanleika í kolefnisjöfnun, bindingu og samdrátt losunar og tryggja samræmi milli íslenskra og erlendra viðmiða, ásamt því að skapa skilning og sátt um mismunandi aðferðir kolefnisbindingar og koma í veg fyrir grænþvott. 

Í stuttu máli:

Súrefni er kolefnisjöfnunarmiðlari á Íslandi fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Á döfinni eru mörg ný verkefni sem munu bætast við Súrefnisskógana. Einnig er Súrefni viðrini að gerð tækniforskriftar með Staðlaráði ÍSlands.

 

Hvað er átt við með kolefnisjöfnun?

 

 

Kolefnisjöfnun er skilgreind í íslenskum lögum. Orðið kolefnisjöfnun vísar alla jafna til þess þegar bætt er fyrir losun gróðurhúsalofttegunda án lagaskyldu, þ.e. í öðrum tilgangi en að uppfylla lagalegar kröfur um skil á losunarheimildum. 

 

Slíka kolefnisjöfnun má kalla valkvæða kolefnisjöfnun. Hafa þarf í huga að ekki eru alltaf skýr skil milli valkvæðrar kolefnisjöfnunar annars vegar og kaupa á losunarheimildum til að uppfylla lagalegar skyldur hins vegar. 

 

Í lögunum segir: Kolefnisjöfnun er þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun (að hluta eða öllu leyti). 

 

Þetta er oftast gert með því að fjármagna verkefni sem a) koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni gróðurhúsalofttegunda annars vegar, eða b) fjarlægja samsvarandi magn gróðurhúsalofttegunda úr andrúmsloftinu. Kolefnisjöfnun, hvort sem hún er með bindingu eða fjármögnun á samdrætti annars staðar, þarf að vera ábyrg, vísindalega staðfest og vottuð. 

 

Huga þarf að aðferðafræði við mat á losun og bindingu, tilurð og viðskiptum með kolefniseiningar og þörfinni fyrir miðlæga skráningu á slíkum einingum.  Einnig þarf að koma á vottun á þessum þáttum. Ofangreind vinna með Staðlaráði er mikilvægt skref í þá átt, ásamt vinna Loftlagsskrár (ICR).


Einnig má sjá útskýringu Umhverfisstofnunar á kolefnisjöfnun hér.

 

Í stuttu máli:

Kolefnisjöfnun felst í framkvæmd verkefnis sem kemur í veg fyrir eða dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, er vottað af óháðum þriðja aðila og einingarnar sem skapast eru nýttar á móti losun gróðurhúsalofttegunda.

 

Vel gert að koma þér inn í þetta!

Núna flækist þetta aðeins:


FRAMHALDSNÁM Í KOLEFNISJÖFNUN

Hvað eru vottaðar kolefniseiningar?

 

Ein kolefniseining (eða eitt kolefnisjöfnunarvottorð) er fjárhagsleg eining sem felur í sér sönnun þess að losun á einu tonni koldíoxíðsígilda út í andrúmsloftið hafi sparast miðað við óbreytt ástand. 

 

Kaupandi slíkrar einingar (vottorðs) getur notað hana til að sýna fram á að hann hafi kolefnisjafnað eitt tonn af eigin losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. vegna raforkunotkunar, flugferða, bílferða o.s.frv. 

 

Viðskipti með kolefniseiningar fara að miklu leyti fram á svokölluðum valkvæðum kolefnismörkuðum (e. voluntary carbon markets). Seljendur á slíkum mörkuðum geta verið t.d. fyrirtæki, sjóðir og stofnanir sem hafa milligöngu um að veita fé í verkefni á sviði kolefnisjöfnunar. 

Einnig tíðkast að kolefniseiningar séu keyptar beint af framkvæmdaraðilum verkefna. Kaupendur kolefniseininga geta verið hvaða aðilar sem vera skal, s.s. einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, opinberir aðilar og þjóðríki.

Í stuttu máli:

 

Vottaðar einingar endurspegla magnið sem var kolefnisjafnað, hafa verið staðfestar af óháðum þriðja aðila, skráðar í Loftlagsskrá og hægt er að nýta á móti losun. 

 

Hver er munurinn á kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun?

Binding kolefnis felur í sér að lofttegundin koltvíoxíð (CO2) er fjarlægð úr andrúmslofti með ljóstillífun plantna eða fönguð úr andrúmslofti eða staðbundnum útblæstri með efnafræðilegum aðferðum sem umbreytist í lífrænt efni í jarðvegi, sem viður eða kolefnaríkar steindir í berglögum. 

 

Kolefnisjöfnun er í raun stærra hugtak sem á við, ekki bara kolefnisbindingu sem dregur úr koltvíoxíði í andrúmsloftinu, heldur einnig aðgerðir sem geta komið í veg fyrir losun á mælanlegan máta.

Í stuttu máli:

 

Kolefnisbinding fjarlægir lofttegundina koltvíoxíð úr andrúmslofti með plöntum - kolefnisjöfnun á við um fleiri leiðir. 

 

Hvað er þetta CO2 ígildi eða CO2e? 

CO2-ígildi, eða koldíoxíðígildi, er sú mælieining sem er notuð til að halda utan um losunartölur fyrir gróðurhúsalofttegundir. Þannig samsvarar eitt tonn af CO2-ígildi einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra  gróðurhúsalofttegunda (t.d. metans, glaðlofts eða F-gasa) sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt (e. global warming potential). 

 

Talað er um hlýnunarmátt mismunandi gróðurhúsalofttegunda. Vegna þess hvað losun koldíoxíðs er margfalt meiri en losun annarra gróðurhúsalofttegunda er það mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin. Engu að síður er mikilvægt að taka tillit til ólíkra áhrifa mismunandi lofttegunda þegar meta á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. 

 

Í þessu skyni er hverri lofttegund því gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku hlýnunaráhrif og öll losun er síðan umreiknuð yfir í CO2-ígildi.

Í stuttu máli:

CO2e er mælieining notuð til að halda utan um losunartölur fyrir allar gróðurhúsalofttegundir - reiknaðar út í einu tonni koldíoxíðs, CO2. 

 

Hvað þýðir að vera kolefnishlutlaus?

 

 

Þegar losun og binding koltvísýrings (CO2) jafnast út verður nettólosunin núll og þá er talað um kolefnishlutleysi (e. carbon neutrality). Kolefnishlutleysi sem hugtak er flestum framandi, enda hefur það fram til þessa einkum verið notað í samskiptum innan vísindasamfélagsins. 

 

Notkun þess í pólitískri og samfélagslegri umræðu hófst fyrir alvöru í aðdraganda Parísarsamningsins og varð síðan hluti af þeim samningi í árslok 2015. Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli hraða losunar og bindingar af mannavöldum og nettólosun er því núll.

 

Kolefnishlutleysi lýsir lokamarkmiði, ekki leiðinni að því marki. Kolefnisjafnvægi er samheiti og á ensku eru hugtökin carbon neutrality, climate neutrality og net-zero emissions mest notuð, eða CO2 neutral. 

 

Við það ójafnvægi sem nú ríkir á heimsvísu er losun mun meiri en binding. Hraði uppsöfnunar kolefnis í andrúmsloftinu ræðst af nettóniðurstöðunni þegar binding er dregin frá losun. Spurningin sem stjórnvöld og samfélagið allt stendur frammi fyrir er ekki hvort kolefnishlutlaust Ísland sé möguleiki, heldur hvers konar kolefnishlutlaust Ísland fellur best að framtíðarsýn þjóðarinnar. 

 

Margar leiðir eru færar að þessu marki. Leiðin sem farin verður mun ráða úrslitum um lífsgæði og hagsæld þeirra sem landið munu byggja. Hemja þarf heimslosunina þ.a. hún nái settu marki án frekari tafar. 

 

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur að beiðni aðildarríkjanna metið hver þróunin þurfi að verða svo að ná megi markmiði Parísarsamningsins. Meginskilaboðin eru þau að helminga þarf heimslosunina 2030 og síðan aftur á hverjum áratug til 2050. 

 

Stjórnvöld á Íslandi hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 sem framlag Íslands til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, lýsir aðgerðum sem miða að því að ná markmiði um að minnka losun um ríflega milljón tonn af CO2-ígildum árið 2030, miðað við losun ársins 2005. 

 

Í stuttu máli:

Kolefnishlutlaus aðili er hættur að hafa neikvæð áhrif á umhverfið með sinni losun, annaðhvort vegna þess að hann dró 100% úr sinni mengun eða vegna þess að öll losun var kolefnisjöfnuð.

 

Hver er munurinn á vottaðri kolefnisbindingu og óvottaðri kolefnisbindingu?

Vottunin endurspeglar í raun bara sannanleika og áreiðanleika kolefnisbindingarinnar. Ef skógur er gróðursettur og síðan er labbað í burt frá honum og hann er aldrei mældur eða hirtur eftir það, mun hann vissulega kolefnisbinda “eitthvað” magn koltvísýrings úr andrúmsloftinu.

 

En þegar reglulegar mælingar eiga sér stað af óháðum þriðja aðila er hægt að fá skóginn vottaðan og vottaðar kolefniseiningar hægt að nýta á móti losun. Allir Súrefnisskógarnir koma til með að vera vottaðir og er það hluti af verkferlum og verðlagi Súrefnis. 

Í stuttu máli:

Vottunin endurspeglar sönnun þriðja aðila að kolefnisjöfnunin átti sér raunverulega stað.

 

Vel gert að komast svona langt! 
Ég veit þetta er fáránlega mikið af upplýsingum.

En fyrir okkur er upplýsingagjöfin jafn mikilvæg og kolefnisjöfnunarverkið!

Þeim mun meira sem þú veist, þeim mun meira getum við öll gert til að breyta og bæta! Það eru engar skyndilausnir til.

Næst: 

​SÚREFNISSKÓGARNIR

 

Hvernig eiga tré sem eru gróðursett núna í Súrefnisskóginum en klára ekki að binda fyrr en eftir fimmtíu ár að  gera eitthvað til að bjarga heiminum?

 

Vissulega er það raunin að Súrefnisskógarnir einir og sér munu aldrei duga til að snúa loftlagsvánni í nútíma heimi. Hinsvegar hefur það ávallt verið hugmyndafræði Súrefnis að fjölmargar hendur vinna þarft verk, hvert einasta litla skref skiptir máli og Súrefnisskógarnir geta verið hluti af lausninni.

 

Súrefni mun á næstu árum kynna fleiri bindingarleiðir og vera kolefnisjöfnunarmiðlari fyrir einstaklinga og fyrirtæki um komandi áratugi á þessum umbreytingartímum. 

Í stuttu máli:

 

Mörg lítil skref hjálpa.

 
 

Hvar eru trén í Súrefnisskóginum gróðursett?

Fyrsti Súrefnisskógurinn mun rísa vorið 2022 vestan Markarfljóts á Suðurlandi, ekki svo langt frá Þórsmörk. Gróðursettar verða 15.000 aspir sem munu binda uþb. 1500 tonn af CO2 á næstu 50 árum og mun umsýsla og viðhald alfarið vera í höndum Skógræktarinnar. 

 

Að 50 árum loknum mun þessi skógur breytast í almenningseign undir umsjón Skógræktarinnar og mun bæta land- og loftgæði ásamt því skapa störf á svæðinu við framkvæmdir og umhirðu svæðisins.

 

Í stuttu máli:

Á Suðurlandi hjá Markarfljóti.

Hvaða tegund af tré verða í Súrefniskógunum?

 

Staðlaða Súrefnistréð samanstendur af alaskaösp og sitkagreni. Einnig bjóðum við sérstökum verkefnum upp á birki.

 

Hvenær byrja gróðursett tré að kolefnisbinda? 

 

Þegar stiklingar eru komnir í jörðu byrja þeir strax að binda kolefni, þó í mjög litlu magni.

Á tíunda til fimmtánda ári fer binding skógarins að nálgast hámark og byrjar að dvína í kringum fertugasta árið. Framleiðsla eininganna verður eftir því og nákvæmt magn verður mælt reglulega og uppfært í Loftlagsskrá.

 

Fyrir sumar plöntur þegar fimmtugasta árið nálgast fer binding að dvína verulega en aðrar plöntutegundir halda áfram að binda í marga áratugi eftir það. Líftími skógar er mismunandi eftir landsvæði og plöntutegundum.

Í stuttu máli:

 

Strax, en mesta binding á sér stað á 15. - 20. ári.

 

Kannski ertu hér komin/nn því þú ert efins um ágæti starfsins! Við skiljum það - kolefnisjöfnun er enn tiltölulega nýtt fyrirbæri og er enn í þróun:

ERFIÐU SPURNINGARNAR

Er þetta ekki bara grænþvottur sem gerir allt verra?

 

 

Okkur öllum hjá Súrefni er fyrirmunað að koma alfarið í veg fyrir grænþvott, enda er það ekki tilgangur félagsins. Hér má sjá grein þar sem við gerum ítarlega grein fyrir hvernig við komum í veg fyrir grænþvott. 

 

Mikilvægt er einnig að taka fram að ofangreind vinna með Staðlaráði er annað gott skref til ábyrgari kolefnisjöfnunar á Íslandi, meðal annars einmitt til að koma í veg fyrir grænþvott.

 

Í stuttu máli:

 

Nei.

 

En er þetta ekki bara syndaaflausn líkt og kirkjan bauð upp á í gamla daga?

Það má vissulega ásaka fólk, sem hefur ákveðið að greiða fyrir kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun í gegnum Súrefni, sem syndgara sem vilja bara syndaaflausn. En við hjá Súrefni horfum fremur á þetta sem gott fólk sem vill láta gott af sér leiða, og við bjóðum alla þá velkomna í Súrefnissamfélagið sem hafa hug á því að gera það sem þau geta miðað við sínar séraðstæður. 

 

Ekki hafa allir efni á að kaupa rafmagnsbíl í dag (og ef út í það er farið eru rafmagnsbílar því miður ekki heldur kolefnishlutlausir), ekki hafa allir áhuga á að taka út alla kjötneyslu, hvorki geta né vilja allir nýtt sér almenningssamgöngur. En allir geta hinsvegar tekið ábyrgð á sinni mengun, minnkað eins og hægt er og kolefnisbundið það sem eftir er.

 

Við erum öll saman í þessarri súpu.

Í stuttu máli:

 

Nei.

 

Hvert fer ágóðinn af sölu Súrefnis?

 

Allur hagnaður Súrefnis fer til uppbyggingar á félaginu í þeirri von að Súrefni geti haft sem mest áhrif á loftlagsvána í heiminum.

 

Hvernig sannið þið að peningurinn sem ykkur er veittur fari raunverulega í alvöru bindingarverkefni?

 

 

Við komum til með að fá óháða úttekt frá alþjóðlegri endurskoðendastofu. Þegar það samstarf verður staðfest verður það kynnt nánar í fréttum um Súrefni.

 

Af hverju er Súrefni einkarekið félag?

 

 

Við trúum því að einkarekin félög, sem rekin eru í hagnaðarskyni, séu betur rekin en góðgerðarstarfsemi, sjóðir og ríkisrekin félög. Þetta hefur sýnt sig og sannað í nútímasamfélagi síendurtekið, og hefur sú hugmyndafræði gert okkur kleift að halda félaginu lipru og leyft því að þróast hratt og með örum hætti.

 

Hverjir standa að baki Súrefnis? Hver á þetta?

 

 

Hér má sjá teymið í heild sinni. Eigendur félagsins eru Aríel Jóhann Árnason og Geir Sigurður Gíslason. Í stjórn félagsins sitja hinir sömu eigendur. Engir aðrir eigendur eða hluthafar koma að félaginu að svo stöddu. 

 

Hvað ef ég trúi ekki á loftlagsbreytingar?

 

 

Við getum því miður ekki hjálpað fólki sem trúir ekki á vísindi. Við leggjum til að þið beinið orku ykkar þá fremur að hjálpa fátækum börnum í þróunarríkjum, sem vissulega er einnig frábært starf (og hefur sýnt sig og sannað að dregur líka úr loftlagsvánni). 

 

Takk fyrir lesturinn. Ef eitthvað er enn óljóst, ekki hika við að senda okkur spurningu!

VIÐ ELSKUM SPURNINGAR!

Takk fyrir spurninguna!